Sport

Serena Williams fór létt með Wozniacki og er komin í úrslit

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Serena Williams og Carolinu Wozniacki eftir leikinn.
Serena Williams og Carolinu Wozniacki eftir leikinn. Mynd/AP
Serena Williams er komin í úrslitaleikinn á opna bandaríska meistaramótinu í tennis eftir sannfærandi sigur á dönsku stelpunni Carolinu Wozniacki í nótt. Wozniacki er í efsta sæti á heimslistanum en bið hennar eftir fyrsta sigrinum á risamóti lengist því enn.

Serena Williams vann loturnar 6-2 og 6-4 og greinilega búin að ná sér að fullu af meiðslunum sem héldu henni frá keppni í langan tíma. „Þetta er æðislegt en þetta hefur verið löng leið til baka," sagði Serena Williams sem kom til baka í júní.

„Það skipti mig svo miklu máli að koma hingað sem Bandaríkjamaður og vera enn með í mótinu. Mig langaði svo mikið að spila á morgun því þetta er svo sérstakur dagur fyrir Bandaríkin," sagði Serena Williams en Bandaríkin minnist nú að það er áratugur liðinn frá árásunum á Tvíburaturnana í New York.  

„Ég gafst aldrei upp en Serena spilaði mjög vel. Hún er í frábæru formi og uppgjöfin hennar er afar erfið," sagði Carolinu Wozniacki sem var spurð út í það að hún er ekki enn búin að vinna risamót þrátt fyrir að hafa verið lengi efst á heimslistanum.  

„Ég er ennþá númer eitt á heimslistanum og það getur enginn tekinn frá mér. Serena er sannur meistari og spilaði frábærlega í dag," sagði Wozniacki.

Serena Williams á nú möguleika á því að vinna opna bandaríska meistaramótið í fjórða sinn á ferlinum. Hún mætir Samantha Stosur frá Ástralíu í úrslitaleiknum en Stosur er númer níu á heimslistanum og vann Þjóðverjann Angelique Kerber í undanúrslitunum.

Williams vann opna bandaríska mótið einnig 1999, 2002 og 2008 en hún hefur alls unnið þrettán risamót á ferlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×