Körfubolti

Drekarnir í Sundsvall töpuðu í kvöld

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hlynur Bæringsson í leik með Sundsvall.
Hlynur Bæringsson í leik með Sundsvall. Mynd/Valli
Fjórir leikir fóru fram í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld og voru tvö Íslendingalið í eldlínunni. Sundsvall Dragons tapaði en Solna, lið Loga Gunnarsson, vann í kvöld sinn fyrsta sigur á tímabilinu.

Sundsvall tapaði fyrir Borås Basket á útivelli, 91-85, í æsispennandi leik. Jafnræði var með liðunum allan leikinn en heimamenn reyndust sterkari á lokakaflanum.

Þegar þrjár mínútur voru eftir var staðan jöfn, 83-83, eftir að þeir Hlynur Bæringsson og Jakob Örn Sigurðarson hefðu skorað fjögur stig í röð fyrir sundsvall.

Gestirnir komust svo yfir stuttu síðar en misstu þá leikinn úr höndunum. Hlynur og Jakob fengu báðir dæmda á sig villu eftir þetta og Pavel Ermolinskij tapaði boltanum þar að auki einu sinni. Borås gekk á lagið með því að skora sjö síðustu stig leiksins og vinna þar með sex stiga sigur, sem fyrr segir.

Jakob var stigahæstur leikmanna Sundsvall með 20 stig. Pavel skoraði sextán auk þess sem hann tók ellefu fráköst og Hlynur var með tíu stig og átta fráköst.

Logi átti flottan leik þegar að Solna vann góðan sigur á LF Basket, 103-93. Logi skoraði 21 stig í leiknum, tók sjö fráköst og gaf sex stoðsendingar.

Solna byrjaði betur en LF Basket náði að koma sér aftur inn í leikinn í þriðja leikhluta. Logi og félagar gáfu þá aftur í og náðu undirtökunum á lokamínútum leiksins.

Sundsvall er með fjögur stig eftir fjórar umferðir en Solna er með tvö stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×