Fótbolti

Ari Freyr þegar hafnað tilboðum frá Svíþjóð og Noregi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ari Freyr Skúlason.
Ari Freyr Skúlason. Mynd/Daníel
Ari Freyr Skúlason, leikmaður sænska knattspyrnuliðsins GIF Sundsvall, er reiðubúinn að skoða möguleika sína en samningur hans við félagið rennur út í desember næstkomandi.

Ari Freyr hefur verið á mála hjá GIF síðan 2008 og vildi fara frá félaginu fyrir tímabilið og spila í betri deild. Það tókst ekki. Liðinu tókst hins vegar að vinna sér sæti í sænsku úrvalsdeildinni í haust og var Ari Freyr lykilmaður í  liðinu.

„Það var takmark mitt fyrir tímabilið að komast í efstu deild og það tókst,“ sagði Ari Freyr við sænska fjölmiðla. „Ég veit því ekki hvað mun gerast núna en ég er opinn fyrir öllu.“

Hann hefur verið orðaður við önnur félög á Norðulöndunum, til að mynda Norrköping og Örebro í Svíþjóð og Lilleström í Noregi.

„Ég hef þegar afþakkað tilboð frá úrvalsdeildarliðum í Noregi og Svíþjóð. Norska félagið vildi fá mig sem vinstri bakvörð en ég hef verið að spila sem miðjumaður í þrjú ár. Sænska félagið bauð mér samning sem mér fannst ekkert sérstaklega góður.“

Hann útilokar ekki að vera áfram í Sundsvall en þess má geta að þrír landsliðsmenn í körfubolta spila með körfuboltafélagi bæjarins, Sundsvall Dragons.

„Ég hef fengið þau skilaboð að félagið ætli að koma með samningstilboð en ég hef ekkert heyrt,“ sagði Ari Freyr. Cain Dotson, yfirmaður íþróttamála hjá félaginu, ætlar að bæta úr því.

„Við ætlum að setjast niður eins fljótt og mögulega er. Við viljum gjarnan halda honum og vonandi getum við komist að niðurstöðu sem allir eru sáttir við.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×