Körfubolti

62 íslensk stig í einum leik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Valli
Sundsvall Dragons vann í kvöld sigur á Solna Vikings, 98-80, þegar heil umferð fór fram í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld.

Alls voru 62 íslensk stig skoruð í leiknum. Hlynur Bæringsson var stigahæstur hjá Sundsvall með sextán stig, Pavel Ermolinskij kom næstur með fimmtán og Jakob Örn Sigurðarson skoraði þrettán.

Þar að auki tók Pavel tíu fráköst, flest allra, og Hlynur átta auk þess að gefa fimm stoðsendingar í leiknum.

Logi Gunnarsson var stigahæsti leikmaður Solna í leiknum með átján stig enn allir fjórir Íslendingarnir voru í byrjunarliði sinna félaga í kvöld.

Jämtland, lið Brynjars Þórs Björnssonar, vann sigur á Örebro í kvöld, 94-85, en tölfræðin úr þeim leik lá ekki fyrir á vefsvæði sænska körfuknattleikssambandisins þegar þetta var skrifað.

Hið sama á við um leik 08 Stockholm og Borås Basket sem síðarnefnda liðið vann, 101-91. Helgi Már Magnússon leikur með 08 Stockholm.

Uppsala er á toppi deildarinnar með átta stig eftir fimm leiki. 08 Stockholm er með sex stig, rétt eins og Sundsvall en Jämtland er með fjögur stig og Solna tvö.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×