Fótbolti

Syrianska hélt sér uppi á dramatísku sjálfsmarki í uppbótartíma - myndband

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stuðningsmenn Syrianska á góðum degi.
Stuðningsmenn Syrianska á góðum degi. Nordic Photos / AFP
Syrianska hafði í dag betur gegn Ängelholm, 3-1, í umspili um sæti í sænsku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð. Samanlagt vann Syrianska 4-3 sigur en liðið komst áfram á dramatísku sjálfsmarki í uppbótartíma.

Heiðar Geir Júlíusson er á mála hjá Ängelholm og var á varamannabekk liðsins í dag. Ängelholm hafnaði í þriðja efsta sæti sænsku B-deildarinnar og vann fyrri leikinn, 2-1, á heimavelli á fimmtudaginn síðastliðinn.

Liðin mættust svo öðru sinni í kvöld og eftir að Syrianska komst 2-1 yfir á 65. mínútu leit lengi vel út fyrir að framlengja þyrfti leikinn. Það er að segja þar til að David Bennhage, leikmaður Ängelholm, varð fyrir því óláni að stýra knettinum í eigið net í uppbótartíma.

Allt ætlaði um koll að keyra og leikmenn, þjálfarar og stuðningsmenn Syrianska fögnuðu sem óðir væru. Myndband af atvikinu má sjá hér.

Þess má geta að Syrianska nýtur stuðnings víða um heim þar sem liðið er eingöngu skipað leikmönnum af assýrískum uppruna. Flestir af þeim uppruna búa í Írak og Sýrlandi en einnig margir í Svíþjóð, Bandaríkjunum og Jórdaníu. Þar sem þessi þjóðflokkur á sér ekki heimaland og þar af leiðandi ekki sitt eigið knattspyrnulandslið líta margir á Syrianska sem þeirra landslið.

Liðið er því dyggilega stutt um allan heim og hafa því margir sjálfsagt fagnað úrslitunum í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×