Fótbolti

Stabæk greiðir Nancy 33 milljónir vegna sölu Veigars Páls

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Scanpix
Forráðamenn norska félagsins Stabæk hafa tilkynnt að félagið hafi komist að samkomulagi við Nancy í Frakklandi um að greiða því 1,6 millón norskra króna, um 33 milljónir króna, vegna sölunnar á Veigar Páli Gunnarssyni til Vålerenga. Þetta gætu reynst góð tíðindi fyrir Stjörnuna og KR.

Mikið hefur verið fjallað um söluna í norskum fjölmiðlum síðustu daga og vikur og málið talið eitt mesta hneykslismál norskrar knattspyrnu síðustu ára.

Vålerenga keypti Veigar Pál en uppgefið kaupverð var ein milljón norskra króna. Nancy átti rétt á helmingi kaupverðsins samkvæmt samkomulaginu sem var gert þegar að Stabæk keypti Veigar Pál aftur frá Nancy á sínum tíma.

Hins vegar fylgdu með í kaupunum kaupréttur á fimmtán ára gömlum gutta sem var metinn á 4 milljónir norskra kaupa. Um svik var að ræða og hafa forráðamenn bæði Stabæk og Vålerenga verið refsað fyrir málið af norska knatttspyrnusambandinu. Málinu er þó ekki lokið þar sem að lögreglan í Osló hefur hafið rannsókn á málinu.

Jarl Överby, settur yfirmaður í Stabæk, segir í yfirlýsingunni að samkomulagið við Nancy sé algerlega óháð refsiaðgerðum norska sambandsins. „Samkomulagi var eingöngu gert til að tryggja hagsmuni Nancy," sagði í yfirlýsingunni.

Þrátt fyrir allt er líklega rétt að áætla að Nancy hafi í raun átt rétt á 2,5 milljónum norskra króna fyrir söluna á Veigar Páli. Lögreglan í Osló segir að samkomulagið hafi engin áhrif á rannsóknina.

Íslensku félögin Stjarnan og KR hafa einnig hagsmuna að gæta þar sem þau eiga rétt á uppeldisbótum fyrir Veigar Pál en það er ákveðið hlutfall af söluvirðinu. Fordæmið sem nú er gefið í samkomulaginu við Nancy hlýtur því að ýta undir að álíka samningur verði gerður við uppeldisfélög Veigars Páls.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×