Iker Casillas, fyrirliði og markvörður Heims- og Evrópumeistara Spánar, þurfti að sætta sig við 1-0 tap á móti Englendingum í vináttulandsleik á Wembley í gær en Casillas jafnaði þarna leikjamet Andoni Zubizarreta með því að spila sinn 126 landsleik.
Casillas spilaði bara fyrri hálfleikinn og var sestur á varamannabekkinn þegar Frank Lampard skoraði sigurmark enska landsliðsins framhjá Pepe Reina á 49. mínútu leiksins.
„Það var synd að við skyldum ekki ná að vinna þennan leik. Þessi leikur skilur eftir óbragð í munninum því að mínu mati voru þetta vitlaus úrslit," sagði Iker Casillas eftir leikinn.
„Við sköpuðum okkur fleiri færi en England sem sýndu á móti styrk sinn í föstum leikatriðum en það voru einu skiptin sem þeir reyndu eitthvað sóknarlega. Ég man ekki eftir því að þeir hafi skapað sér eitthvað í opnum leik," sagði Casillas.
„Ég hef hvorki hugsað um eða tjáð mig um leikjametið. Ef ég hætti á morgun þá myndi ég telja mig hafa verið lánsamann að ná því að spila svona marga leiki en nú er ég bara að hugsa um leikinn á móti Kosta Ríka á þriðjudaginn," sagði Casillas.

