Fótbolti

Lögreglan vill fá frekari upplýsingar um félagaskipti Veigars Páls

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Lögreglan í Osló hefur óskað eftir því að fá að vita hvers konar viðskipti áttu sér stað þegar að Veigar Páll Gunnarsson var seldur frá Stabæk til Vålerenga. Leiði það til sakfellingar gætu forráðamenn félaganna endað í fangelsi.

Ítrekað hefur verið fjallað um málið en Vålerenga keypti Veigar Pál frá Stabæk fyrir eina milljón norskra króna. Með í kaupunum fylgdi kaupréttur á fimmtán ára leikmanni sem var metinn á fjórar milljónir. Með því sparaði Stabæk sér að greiða franska félaginu Nancy tvær og hálfa milljón króna sem þeir hefðu þurft að gera hefði Veigar Páll farið á fimm milljónir. Á endanum fékk Nancy bara hálfa milljón.

„Við höfum fylgst með því sem hefur gerst frá hliðarlínunni, bæði í fjölmiðlum og annars staðar," sagði fulltrúi lögreglunnar í samtali við norska fjölmiðla í gær.

„Við viljum meina að nú sé rétti tímabpunkturinn til að fá að vita almennilega hvað gerðist í þessu máli," bætti hún við en lögreglan hefur farið fram á greinagerð frá félögunum tveimur.

„Við viljum vita hvort að norsk refsilög hafi verið brotin. Út frá greinagerðinni verður ákveðið hvort að formleg rannsókn verði sett af stað. Verði komist að því að um svik sé að ræða er það vitanlega ekki smávægilegt brot," bætti hún við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×