Fótbolti

Leonardo: Paris St Germain ætlar ekki að stela Tevez

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlos Tevez
Carlos Tevez Mynd/Nordic Photos/Getty
Leonardo, yfirmaður knattspyrnumála hjá franska liðinu Paris St Germain, segir að félagið ætli ekki að stela Carlos Tevez af hans gamla félagi AC Milan. Leonardo segist samt hafa áhuga á argentínska framherjanum ef að ítalska félagið hættir við að reyna að fá Tevez frá Manchester City.

AC Milan er að reyna að fá Carlos Tevez á láni frá Manchester City og hefur náð samkomulagi við leikmanninn sjálfan. City vill hinsvegar aðeins selja Tevez og þar stendur hnífurinn í kúnni.

Paris St Germain hefur mikla peninga á milli handanna og þykir orðið líklegur áfangastaður fyrir Carlos Tevez nú þegar framtíð hans sé ráðinn hjá Manchester City. Franska liðið fékk inn sterka fjárfesta frá Katar og er eitt nýjasta nýríka félagið í Evrópuboltanum.

Paris St Germain datt út úr Evrópudeildinni í síðustu viku en er í harðri baráttu um franska meistaratitilinn. Liðið er nú í 2. sæti á lakari markatölu en topplið Montpellier.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×