Fótbolti

Marklínutæknin mögulega prófuð í Skotlandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úr leik Celtic og Rangers.
Úr leik Celtic og Rangers. Nordic Photos / Getty Images
Forráðamenn skosku úrvalsdeildarinnar segjast reiðubúnir að prófa nýja marklínutækni í leikjum deildarinnar á næsta tímabili.

Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, hefur verið að prófa ýmsan búnað og mun taka ákvörðun í júní næstkomandi hvort nota eigi búnaðinn til reynslu í alvöru leikjum.

Tæknin á að skera úr um hvort að boltinn fari allur yfir marklínuna en í hita leiksins getur verið erfitt fyrir dómara að sjá hvort það hafi verið tilfellið, eins og hefur margsýnt sig í gegnum tíðina.

Slíkt dæmi kom til að mynda upp í leik Celtic og Rangers í Skotlandi á dögunum. Lee Wallace, leikmaður Rangers, virtist hafa náð að koma boltanum yfir línuna áður en Fraser Forster, markvörður Celtic, kom höndum á boltann. Dómararnir sáu ekki hvort að boltinn hafi farið yfir línuna og dæmdu því ekki mark.

Margoft hefur verið kallað eftir því að slíkur búnaður verði notaður í leikjum en hingað til hefur það ekki fengist samþykkt af knattspyrnuyfirvöldum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×