Fótbolti

Ferguson: Wayne sýndi hugrekki sitt í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney fagnar sigurmarki sínu.
Wayne Rooney fagnar sigurmarki sínu. Mynd/AP
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, var ánægður með 1-0 útisigur á Chelsea í kvöld í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Wayne Rooney skoraði eina mark leiksins en United gat þakkað frábærri markvörslu Edwin van der Sar fyrir sigurinn sem og því að Alberto Undiano Mallenco dæmdi ekki víti þegar Patrice Evra felldi Ramires undir lok leiksins.

„Þetta leit út eins og Ramires væri að gera meira úr þessu en það var. Við höfðum samt líklega heppnina með okkur og það er í fyrsta sinn í sjö ár sem það gerist á þessum velli. Það er samt um nóg annað að tala en þetta víti," sagði Sir Alex Ferguson.

„Leikmennirnir mínir voru frábærir og það var mjög mikilvægt fyrir okkur að halda hreinu í þessum leik. Skyndisóknirnar voru einnig stór hluti af okkar leik í kvöld," sagði Ferguson sem hrósaði mikið framherjanum Rooney sem hefur mátt þolað mikla neikvæða umfjöllun eftir að hann var kærður af enska sambandinu fyrir ljótan munnsöfnuð.

„Wayne var frábær. Hann lenti í mörgum seinum tæklingum í þessum leik en stóð alltaf upp og sýndi með því hugrekki sitt," sagði Ferguson.

„Það er bara hálfleikur en við erum með forskot á þá. Stærsta forskotið okkar er þó stuðningurinn á Old Trafford og við treystum á hann í seinni leiknum," sagði Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×