Innlent

Skotglaðir flugeldamenn lofa góðri skemmtun á Menningarnótt

Flugeldamennirnir Eiríkur Lárusson, skotstjóri, og Svavar Jónsson, skotmaður, lofa sjö mínútna flugeldasýningu annað kvöld, Menningarnótt, með öllu tilheyrandi.

Þeir eru þó uggandi að vera með annað eins magn af flugeldum í kringum sig en þeir hafa lagt heilt iðnaðarhúsnæði undir púðrið.

„Auðvitað er maður alltaf óöruggur í kringum þetta. Það þarf lítið til þess að kveikja í þessu og þá kemur maður sér bara í burtu eins fljótt og maður getur,“ segir Svavar en þeir fylgja sérstakri viðbragðsáætlun ef óhapp verður.

Eins og fram kemur í viðtali við þá félaga í Íslandi í dag þá eru flugeldarnir flestir komnir frá Kína og sérstakt skotborð þarf til þess að skjóta herlegheitunum upp.

Mikið skipulag er á þeim félögum; annar þeirra stjórnar borðinu á meðan hinn er tímavörður. Svo er undirbúningsvinnan gríðarleg.

„Tímavörðurinn verður að dangla duglega í skotmanninn til þess að láta hann vita hvenær skal skjóta,“ segir Eiríkur sem hlakkar mikið til.

Þeir félagar játa að þeir hafi meira gaman af flugeldum en gengur og gerist. „Okkur finnst gaman að vera með læti og sprengja,“ segir Eiríkur.

„Gamlárskvöldin eru þó skemmtilegust,“ bætir Svavar við. Hægt er að horfa á innslag Íslands í dag hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×