Erlent

Sprauta vatni á smábátana svo ferjan komist áfram

Sannkallað ferjuæði hefur skapast í Noregi vegna sjónvarpsútsendingar frá Hurtigruten, siglingu ferjunnar Nordnorge. Útsendingin slær áhorfsmet og hvarvetna sem ferjan kemur mætir henni mannhaf á bryggjunum til að fagna henni.

Frá því á fimmtudag hefur stöð tvö á norska ríkissjónvarpinu, NRK2, verið í beinni maraþonútsendingu frá siglingu ferjunnar milli Bergen og Kirkenes, en hún kemur við í 34 höfnum á leiðinni. Áhugi almennings hefur komið mönnum í opna skjöldu en NRK2 sló eigið áhorfsmet um helgina þegar tvær og hálf milljón manna fylgdust með útsendingunni. Þeirra á meðal var forsætisráðherrann Jens Stoltenberg, sem sagði að þetta væri Noregur upp á sitt allra besta.

Sannkölluð þjóðhátíðarstemmning ríkir í bæjunum þar sem ferjan kemur við og hvarvetna flykkist fólk niður á bryggju til að taka á móti henni. Þá fylgir henni fjöldi smábáta og stundum svo mikill að nokkrum sinnum hefur skapast hættuástand. Hafa björgunarskip gripið til þess ráðs að nota öflugar sprautubyssur til að bægja þeim bátum frá sem freistast til að sigla hættulega nærri stefni hennar.

Ólíkustu hópar reyna að nýta sér athyglina. Kórar, hljómsveitir, dansflokkar og allskyns skemmtikraftar keppast um að flytja atriði sín á bryggjunum, umhverfissamtök mæta með mótmælaborða gegn olíuleit, bónorð eru flutt í beinni, norski herinn flýgur sýningarflug yfir ferjunni og bæjarstjórar og oddvitar sýna sig og auglýsa byggðir sínar.

Fyrir einkafyrirtækið sem rekur Hurtigruten-ferjurnar er auglýsingin talin margra milljarða virði.

Ferjan er nú á leið milli nyrstu bæja Noregs, - var í morgun í Hammerfest og í hádeginu í Honningsvåg, - en ferðinni lýkur í Kirkenes klukkan hálftíu í fyrramálið, - og þangað eru ráðherrar nú farnir að boða komu sína. Hægt er að fylgjast með útsendingunni á Fjölvarpi Stöðvar og einnig á netinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×