Innlent

Stöðva 9 milljarða til íþrótta

Dagur B. Eggertsson
formaður borgarráðs segir framkvæmdir á vegum borgarinnar töluverðar þótt framlög til íþróttamannvirkja hafi að stærstum hluta verið sett á ís.
Fréttablaðið/Stefán
Dagur B. Eggertsson formaður borgarráðs segir framkvæmdir á vegum borgarinnar töluverðar þótt framlög til íþróttamannvirkja hafi að stærstum hluta verið sett á ís. Fréttablaðið/Stefán
Með samþykkt borgarráðs á viðaukasamningi við Knattspyrnufélagið Fram hefur borgin nú samið um frestun á alls 9.390 milljóna virði af framkvæmdum sem hún hafði lofað að greiða fyrir fimm íþróttafélög.

Eftir að borgin endursamdi við félögin fimm standa eftir framkvæmdir fyrir 1.038 milljónir af fyrri loforðum frá árunum 2006 til 2008 um 10.428 milljónir króna. Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, segir að auk framlags til framkvæmda hafi verkefnin falið í sér nær milljarð króna í árlegum rekstri að öllu meðtöldu.

„Þessir samningar fóru langt fram úr því sem borgin gæti ráðið við, jafnvel þótt hér hefði verið bullandi góðæri út í eitt. Jafnframt er umhugsunarefni að sumir samninganna voru lagðir fram án þess að heildarkostnaður eða sú skuldbinding sem í þeim fælist lægi fyrir, þannig að tölurnar sem fylgdu sögðu aðeins hluta sögunnar. Af þessu öllu þurfum við sannarlega að læra,“ segir Dagur.

Allir fulltrúar í borgarráði nema fulltrúi VG greiddu atkvæði með samningum við Fram í gær. Önnur félög sem málið snertir eru Fjölnir, Fylkir, ÍR og Golfklúbbur Reykjavíkur.

Fjölnir fékk á árinu 2007 samning um 3.200 milljónir króna. Samið var um það á árinu 2009 að fresta eða hætta við framkvæmdir fyrir 2.900 milljónir af upphæðinni. Fram fékk fyrirheit um 3.367 milljónir á árinu 2008 en með samningnum sem fyrr er nefndur er 2.859 milljónum af því frestað. Á árinu 2006 var Fylki lofað 1.550 milljónum en fallið var frá því með samningi í fyrra.

Golfklúbbur Reykjavíkur fékk samning um 311 milljónir á árinu 2006 en í fyrra var skorin 81 milljón af þeirri upphæð. Þá fékk ÍR fyrirheit á árinu 2006 um 2.000 milljónir. Þeim framkvæmdum er öllum frestað.

„Þetta er mjög mikilvægt fyrir borgina vegna fjárhagsstöðu hennar,“ segir formaður borgarráðs. „En þetta sýnir líka að íþróttafélögin í Reykjavík eru ekki aðeins metnaðarfull heldur líka ábyrg og raunsæ. Fyrir það erum við þakklát og getum raunar verið stolt.“- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×