Innlent

Gæti svipað til Central Park

Stefnt er að því að gera Öskjuhlíðina að útvistarperlu. Fréttablaðið/hari
Stefnt er að því að gera Öskjuhlíðina að útvistarperlu. Fréttablaðið/hari
„Okkur finnst náttúruperlan Öskjuhlíð lítið kynnt þótt hún sé nálægt Nauthólsvík, frábærum gönguleiðum og stríðsminjum,“ segir Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs Reykjavíkurborgar.

Borgarráð samþykkti í gærmorgun að setja á laggirnar starfshóp sem myndi í samstarfi við Reykjavíkurborg, Háskólann í Reykjavík og Skógræktarfélag Íslands móta framtíðarstefnu um skipulag Öskjuhlíðar. Horft er til þess að byggja þar upp alhliða útivistarsvæði jafnt fyrir börn sem fullorðna. „Hugmyndir hafa verið uppi um að endurskoða gróðurstefnuna í Öskjuhlíð og grisja betur. Jafnvel setja upp lund með ávaxtatrjám,“ segir Jóhann Hlíðar Harðarson, forstöðumaður almannatengsla Háskólans í Reykjavík. Hann bendir á að síðustu ár hafi verið sýnt fram á að rækta megi ávaxtatré í borginni.

„Okkur finnst að það eigi að kynna Öskjuhlíðina betur fyrir fólki, ekki síst útlendingum. Hún gæti orðið okkar Central Park. Þannig sjáum við hana fyrir okkur,“ segir hann.

Á morgun verður Öskjuhlíðardagurinn haldinn í fyrsta sinn. Þar verður margt í boði, stríðsminjar kynntar, farið í ratleiki og margs konar uppákomur í boði. - jab




Fleiri fréttir

Sjá meira


×