Innlent

Tvö ár fyrir að slá lögreglumann og stela bíl

Liðlega þrítugur maður var í dag dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir rán, þjófnaði fíkniefnabrot og brot gegn valdstjórninni þegar hann sló lögreglumann í andlitið.

Við málflutning kom fram að maðurinn, Gunnar Þór Grétarsson, sem á langan sakaferil að baki, hafi verið að leitast eftir því að verða handtekinn þegar hann sló lögreglumanninn en lögregla hafði hann grunaðan um að hafa brotist inn í bíla. Hann sagðist hafa verið undir miklum áhrifum fíkniefna umrædda nótt eftir langar samfelldar vökur. Hann hafi því viljað fá gistingu í fangaklefa en staðæfir að ekki hafi staðið til að skaða neinn. Lögreglumenn sem urðu vitni að árásinni á kollega sinn staðhæfðu hinsvegar að um árás af ásetningi hafi verið að ræða.

Þá var hann einnig dæmdur fyrir að fara inn í bifreið sem var í gangi í Elliðarárdalnum en í aftursæti hennar sváfu tveir ungir menn. Gunnar settist undir stýri og ók af stað stuttan spöl þangað til annar farþeganna sló til hans. Þeir fóru þá út úr bílnum og greip ákærði þá barefli og hótaði mönnunum áður en hann tók bílinn ófrjálsri hendi.

Ákærði hefur alls 17 sinnum verið dæmdur fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, lögum um ávana- og fíkniefni og umferðarlögum. Þá hefur hann alls 7 sinnum gengist undir dómsáttir vegna brota á lögum um ávana- og fíkniefni og umferðarlögum. Síðast var ákærði dæmdur 2. júlí 2010 er hann var dæmdur í 6 mánaða fangelsi fyrir þjófnað og brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni og umferðarlög.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×