Erlent

Mótmælendur kveikja í sér

Mótmæli í Túnis Maður með brauð í hendi borinn á höndum annarra mótmælenda. nordicphotos/AFP
Mótmæli í Túnis Maður með brauð í hendi borinn á höndum annarra mótmælenda. nordicphotos/AFP
Ungur atvinnulaus maður lést á sjúkrahúsi í Egyptalandi í gær. Hann hafði kveikt í sjálfum sér í hafnarborginni Alexandríu, augljóslega að fyrirmynd annars ungs manns, Mohameds Bouazizi, sem kveikti í sér í Túnis í desember og hratt af stað uppreisn gegn stjórn forsetans þar í landi.

Fleiri ungir menn hafa gripið til sama ráðs í arabaheiminum undanfarið, þar á meðal þrír aðrir í Egyptalandi, sem lifðu þó allir af. Mótmælendur í Máritaníu og Alsír kveiktu einnig í sér, greinilega í von um að hrinda af stað uppreisn áþekkri þeirri sem varð í Túnis.

Óvissa ríkir um líf þjóðstjórnarinnar í Túnis, sem tók við völdum á mánudag eftir að harðstjórinn Zine El Abidine Ben Ali hrökklaðist frá völdum.

Mikil óánægja er í Túnis með þátttöku náinna samstarfsmanna Ben Alis í nýju stjórninni. Í gær sögðu fjórir andstæðingar Ben Alis af sér ráðherraembætti í nýju stjórninni, aðeins degi eftir að hún tók til starfa. Ekki var ljóst í gær hvort stjórnin væri þar með fallin.

Efnt var til mótmæla í gær gegn RCD, flokki Ben Alis, og hrópuðu sumir: „Við getum lifað á brauði og vatni eingöngu, en ekki með RCD.“- gb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×