Innlent

Hafa slegið verulega af kröfum sínum

Vilhjálmur Egilsson
Vilhjálmur Egilsson
„Við höfum reiknað með því að mennirnir muni ana út í þetta verkfall og valda starfsfélögum sínum, fyrirtækjum og sam­félaginu stórkostlegu tjóni. Við höfum ekki fundið fyrir neinni ábyrgðar­tilfinningu hjá þeim,“ segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, um fyrir­hugað verkfall um áttatíu bræðslumanna sem hefst á morgun.

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvar­innar í Vestmannaeyjum, sagðist í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 í gær áætla að útgerðin yrði af allt að ellefu milljörðum króna vegna verkfallsins. Þar af væru fimm milljarðar í bræðslu og á bilinu þrír til sex milljarðar í loðnuhrognum sem yrðu eftir í sjónum.

Vilhjálmur segir bræðslumenn ekki geta stigið fram og lagt fram kröfu um meiri launahækkun en aðrir hópar. „Við teljum að þessi litli hópur eigi að vera samferða öðrum félögum á vinnumarkaðnum. Við höfum talið að ekki sé nokkur leið að ganga að ofurkröfum frá þessum hópi og setja hér allt í uppnám á vinnumarkaðnum,“ segir hann.

Sverrir Albertsson, framkvæmdastjóri AFLs Starfsgreinafélags og samningamaður bræðslumanna, vísar ábyrgðinni aftur til föður­húsanna. Hann segir bræðslumenn hafa slegið verulega af kröfum sínum um 27 prósenta launa­hækkun en talað fyrir daufum eyrum.

Fyrir viku hafi samninganefndin mætt til fundar við SA með kröfu upp á 20 þúsund krónur ofan á taxta til 30. nóvember næstkomandi. Það jafngildir sjö prósenta hækkun. SA hafi hafnað því.

„Þetta var sáttavilji hjá okkur. En síðan hafa dunið yfir okkur yfirlýsingar í fjölmiðlum frá SA um að ekki verði samið sérstaklega við okkur,“ segir Sverrir.

„Það er ekki eðlilegt að einn hópur fari á undan og vilji meira en aðrir. Það gengur ekki upp,“ svarar Vilhjálmur.

Ekki náðist í Guðbjart Hannes­son, velferðarráðherra sem fer með atvinnumál, þegar eftir því var leitað í gær.

jonab@frettabladid.is
sverrir albertsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×