Erlent

SÞ segja yfir 300 hafa fallið

Tugþúsundir manna söfnuðust saman í miðborg Kaíró í gær ellefta daginn í röð. 
fréttablaðið/ap
Tugþúsundir manna söfnuðust saman í miðborg Kaíró í gær ellefta daginn í röð. fréttablaðið/ap
Sameinuðu þjóðirnar telja að yfir 300 manns hafi fallið í mótmælum í Egyptalandi frá 25. janúar og um fjögur þúsund manns séu sárir, margir lífshættulega. Samkvæmt frétt BBC hafa stjórnvöld í landinu hins vegar aðeins gefið upplýsingar um mannfall í höfuðborginni Kaíró og sagt að átta hafi látið lífið og yfir 800 séu þar sárir.

Miðborg Kaíró breyttist í gær úr blóðugum vígvelli í allt að því friðsamlegan vettvang mótmæla. Spennan var hins vegar mikil. Tugþúsundir mótmælenda söfnuðust saman ellefta daginn í röð og nefndu daginn „brottfarardaginn“ með tilvísun í það að Hosni Mubarak forseti hefði aðeins tíma til dögunar til að verða við kröfum fólksins um afsögn.

Mubarak sagði í viðtali við ABC á miðvikudag að hann væri þreyttur á því að halda um valdataumana í landinu og aðeins óttinn við skálmöld stæði í veginum fyrir því að hann færi frá. Mótmælendur gripu þetta á lofti og stjórnarandstöðuleiðtoginn Mohamed ElBaradei benti forsetanum á að öll þjóðin væri þreytt á setu hans á forsetastóli. Elbaradei hefur nú tilkynnt að til greina komi að hann fari í forsetaframboð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×