Erlent

Nóbelshafi sakar ráðamenn um óheilindi

Junus kemur úr réttarsal. nordicphotos/AFP
Junus kemur úr réttarsal. nordicphotos/AFP
Muhammed Junus, Nóbelsverðlaunahafi og bankastjóri í Bangladess, hefur mótmælt því harðlega að stjórnvöld í Bangladess ætli að reka hann úr starfi sínu sem bankastjóri Grameen-bankans.

Junus, og bankinn sem hann stofnaði, hefur notið mikillar virðingar fyrir að útvega fátæku fólki lánsfé til að koma undir sig fótunum. Nú í vetur komu hins vegar fram ásakanir í norskum sjónvarpsþætti um að bankinn stundaði okurlánastarfsemi og gengi hart að fólki sem ekki getur staðið í skilum.

Junus segir að Sheikh Hasina, forsætisráðherra í Bangladess, noti þetta sem átyllu til að bola sér úr embætti, en í raun hafi hún horn í síðu hans vegna þess að hann hafi árið 2007 kynnt áform um að stofna stjórnmálaflokk, með tilstyrk hers landsins. Junus sagðist sjálfur vilja hætta og gefa öðrum kost á að taka við stjórn bankans, en hann vildi þó ekki hætta við þessar aðstæður.

„Ef ég hætti vegna ills umtals missir fólk trú á Grameen-bankanum. Það vil ég ekki að gerist,“ sagði hann eftir að hafa fært rök fyrir máli sínu fyrir dómi í gær.

- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×