Innlent

Ljósleiðarinn rofinn: Merkið sent öfuga leið

Brúin yfir Múlakvísl er farin
Brúin yfir Múlakvísl er farin Mynd/ Þórir N. K.
Ljósleiðari Mílu slitnaði í hlaupinu í Múlakvísl. Forsvarsmenn fyrirtækisins segja áhrifin á net- og símasamband takmörkuð, en merkjasendingar fara nú norðurleiðina um landið. Landshringur Mílu, ljósleiðari sem liggur hringinn í kringum landið, er slitinn á milli Víkur og Kirkjubæjarklausturs, en hann slitnaði í hlaupinu í Múlakvísl. Sigurrós Jónsdóttir, upplýsingafulltrúi Mílu, segir að skaðinn á síma- og netsambandi sé takmarkaður, og bundinn við svæðið næst hlaupinu. „Það er búið að verja helstu sambönd á strengnum," segir Sigurrós. „Áhrifin af slitinu eru óveruleg. Það er þá staðbundið á því svæði sem flóðið er." Hún segir að sambandið sé varið með því að veita merkjum öfuga leið um ljósleiðarann. „Í stað þess að senda merkið suðurfyrir, til dæmis til að komast að Klaustri, þá fer það norður fyrir land. Ljósleiðarinn er heill og nær allan hringinn um landið, og þannig náum við að verja samböndin." Sigurrós segir að í versta falli sé merkið lengur á leiðinni, en að öðru leyti þoli ljósleiðarastrengurinn álagið vel. Framundan eru svo viðgerðir á strengnum, en viðgerðarteymi er á svæðinu og fylgist með framgangi mála. „Ef flóðið er í rénun, þá fylgist teymið með því að það komist að strengnum. Þá þurfa viðgerðarmennirnir að komast að slitinu sjálfu, og þá verður hafist handa við viðgerðir um leið og aðstæður leyfa."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×