Innlent

Lítil nýliðun meðal augnlækna áhyggjuefni

Jóhanna Margrét Gísladóttir. skrifar
Hér á landi starfa nú þrjátíu augnlæknar og er meðalaldur þeirra kominn langt yfir fimmtugt. Lítil nýliðun hefur verið undanfarin ár en til dæmis hefur enginn nýr sérfræðingur verið ráðinn til starfa á augndeild Landspítalans síðan árið 2006.

,,Það hafa verið deildarlæknar hjá okkur sem eru núna að fara út í sérnám en það tekur 5-10 ár að þjálfa upp lækna til að sinna sérhæfðum skurðaðgerðum og flóknari vandamálum, við sendum ekki fólk út í eitt tvö ár og það kemur aftur heim og getur gert þessa hluti, það tekur langan tíma" segir María Soffía Gottfreðsdóttir formaður Augnlæknafélags Íslands og sérfræðingur á Landspítalanum.

Hún segir auglækningar mjög sérhæft fag og það séu fáir sem hafa þekkingu í hverri sérgrein. ,,þannig að hver og einn sérfræðingur skiptir gríðarlega miklu máli og það er mikil blóðtaka fyrir okkur ef við missum í rauninni bara hvern og einn."

Nú þegar hafa nokkrir augnlæknar flutt erlendis og aðrir starfa einungis tímabundið hér á landi. Ástandið er því mjög brothætt að sögn Maríu og hætta á að mikil framþróun í faginu undanfarin ár muni hverfa og þjónusta sem talin er sjálfsögð í dag hverfa.

,,Ef að við missum þetta fólk sem er að sinna sérhæfðari vandamálum og er að gera aðgerðir í dag að þá í raun og veru ættum við ekki annarra kosta völ en að senda það fólk út með tilheyrandi kostnaði og óþægindum fyrir sjúklingana" segir María Soffía.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×