Erlent

Andsetningar í Róm - netið kemur ungmennum í samband við djöfulinn

Djöfullinn leynist víða.
Djöfullinn leynist víða.
Veraldarvefurinn hefur gert fólki auðveldara um vik að komast í tengsl við djöfladýrkendur, en það er mikið áhyggjuefni ráðstefnugesta í háskóla í Róm, sem fjalla um særingar og andsetningar.

Særingar er umræðuefni sex daga ráðstefnu í Regina Apostolorum Pontifical háskólanum í Róm en það er Vatíkanið sjálft sem stendur fyrir ráðstefnunni. Þar er fjallað um djöfladýrkendur, frætt um særingar og annað í þeim dúr, en tilgangurinn er að nálgast þetta alræmda umfjöllunarefni út frá alvarlegum vísindalegum grunni.

Meðal áhyggjuefna ráðstefnugesta er eins og áður sagði auðvelt aðgengi almennings að djöfladýrkendum í gegnum veraldarvefinn. Þannig getur ungt fólk komið sér í samband við djöfladýrkendur á nokkrum mínútum.

Þetta er alvarlegt umhugsunarefni af hálfu Vatíkansins sem lítur svo á að hið illa, og vaxandi áhugi á djöflinum sjálfum, sé orðið alvarlegt vandamál í nútímasamfélagi.

Alls eru 60 kaþólskir prestar, læknar, sálfræðingar, kennarar og æskulýðsfulltrúar á ráðstefnunni.

Skipuleggjendur ráðstefnunnar segja upprisu djöfladýrkenda hafa verið alvarlega vanmetna síðustu ár. Samkvæmt kenningum kaþólikkanna getur hvaða prestur sem er sært illa anda úr manneskjum. En það var fyrir þremur árum síðan sem Vatíkanið beindi þeim tilmælum til presta að kalla til sérstaka særingamenn á vegum kirkjunnar ef grunur léki á að manneskja væri andsetin.

Meðal einkenna sem andsetin manneskja hefur, og lýst er á ráðstefnunni, er snögg breyting á hegðun sem og röddu, eiginleikinn til þess að tala erlend tungumál, svo ekki sé talað um útdauð tungumál og svo náttúrulega guðlast.

Yfirsæringamaður Vatíkansins, faðir Gabriele Amorth, sagði djöfulinn sjálfan dvelja í Vatikaninu, höfuðvígi kaþólskunnar, svo alvarleg væri staðan. Hann vill meina að ítrekuð barnamisnotkunarmál, sem hafa komið upp í kaþólsku kirkjunni undanfarin ár, vera runnar undan rifjum Satans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×