Erlent

Ekkja Hoppers stöðvar listaverkauppboð

Óli Tynes skrifar
Dennis Hopper og Victoria Duffy
Dennis Hopper og Victoria Duffy

Bandaríski leikarinn Dennis Hopper var mikill listunnandi og safnaði meðal annars málverkum eftir fræga málara. Í gær var selt á uppboði málverk sem hann átti af Mao formanni eftir Andy Warhol.

Hopper hafði „endurbætt" málverkið með því að skjóta á það tvö göt með skammbyssu. Hann sagði að Andy hafi líkað það vel. Verkið seldist fyrir rúmar 35 milljónir íslenskra króna.

Hálfu ári áður en hann lést í maí síðastliðnum sótti Hopper um skilnað frá eiginkonu sinni Victoriu Duffy. Margt vinafólk hélt því reyndar fram að fullorðin dóttir hans, Marin, hafi ýtt honum út í þetta. Sjálfur hafi hann verið alltof ruglaður af verkjalyfjum til að vita hvað hann var að gera.

Verkið af Maó. Andy Warhol dró hringi í kringum götin tvö og skrifaði við þau "Bullet hole" og "Warning shot".

Viktoría vill ekki viðurkenna að skilnaður þeirra sé orðinn formlegur. Hún fékk því sett lögbann á annað uppboð sem átti að vera á málverkum Hoppers hjá Christies í dag.

Hún gerir tilkall til margra verka eftir listamenn sem venjulega seljast á tugi milljóna króna. Fjölskylda Hoppers vill að sjö ára gömul dóttir hans og Viktoríu, Galen, fái peningana sem fást fyrir listaverkin. Hjónin voru gift í 14 ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×