Erlent

Stjórnarandstaðan fær að vera með

Íbúar í Túnis flykktust út á götur í gær, harla ánægðir með þróun mála.
nordicphotos/AFP
Íbúar í Túnis flykktust út á götur í gær, harla ánægðir með þróun mála. nordicphotos/AFP

Mohammed Ghannouchi verður forsætisráðherra áfram í nýrri þjóðstjórn í Túnis, sem tók við völdum í gær, aðeins fáeinum dögum eftir að Zine al-Abidine Ben Ali forseta var steypt af stóli.

Ghannouchi hefur verið forsætisráðherra síðan 1999 og náinn bandamaður Bens Ali forseta, sem flúði land um helgina eftir að almenningur gerði uppreisn gegn honum.

Ghannouchi segir að nú verði teknir upp lýðræðislegir stjórnarhættir. Öllum stjórnmálaflokkum verði leyft að starfa, fjölmiðlafrelsi verði virt og pólitískir fangar verði látnir lausir. Samkvæmt stjórnarskrá verða forsetakosningar haldnar innan tveggja mánaða.

Fréttir bárust af því í gær að þrír stjórnarandstæðingar, þeir Ahmed Ibrahim, Mustafa Ben Jafaar og Sidi Amamou, yrðu með í nýju stjórninni.

Ben Ali, sem hafði stjórnað landinu í 23 ár, fór sínu fram af hörku og leyfði enga opinbera gagnrýni. Hann var sagður reka landið eins og fjölskyldufyrirtæki, algerlega eftir eigin duttlungum.

Uppreisn almennings gegn honum hófst í desember eftir að atvinnulaus stúdent, Mohamed Bouazizi, stytti sér aldur með því að kveikja í sér eftir að yfirvöld höfðu bannað honum að selja grænmeti úti á götu.

Mótmælin hófust í heimabæ hans, Sidi Bouzid, og bárust smám saman út um landið. Þegar stjórnvöld brugðust við af hörku og skutu á mótmælendur magnaðist reiði almennings, sem hafði hvort eð er fyrir löngu fengið nóg af spillingu og ofríki stjórnarinnar.

Líklegt þykir að uppljóstranir á vef Wikileaks í síðasta mánuði, þar sem fram komu upplýsingar um spillingu stjórnvalda, hafi átt sinn þátt í að ýta undir óánægjuna.

Óvíst er hvort mótmælendurnir munu sætta sig við að helstu ráðherrar fyrri stjórnar, svo sem utanríkisráðherrann, varnarmálaráðherrann og innanríkisráðherrann, verði áfram við völd ásamt forsætisráðherranum Ghannouchi.

Margir stjórnarandstæðingar komu þó saman á götum úti til að fagna breytingunni og lýsa yfir von um að ekki verði horfið aftur til einræðisfyrirkomulags fráfarandi forseta.

Óvíst er einnig hvort þessi bylting í Túnis, sem gengið hefur óvenju hratt fyrir sig, hefur áhrif víðar í arabaheiminum, þar sem almenningur er ekki alls staðar sáttur við ólýðræðislega stjórnarhætti.

gudsteinn@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×