Erlent

Stálu forsetahjónin gullforðanum?

Leila Ben Ali.
Leila Ben Ali. MYND/AP

Franska blaðið Le Monde fullyrðir að forsetahjónin í Túnis, sem flúið hafa land, hafi tekið með sér stóran hluta af gullforða landsins.

Seðlabankastjórinn segir ekkert hæft í sögunni. Blaðið hefur eftir heimildum innan úr frönsku leyniþjónustunni að eiginkona forsetans fyrrverandi, Leila Trabelsi, hafi mætt í bankann í desember síðastliðnum og tekið út eitt og hálft tonn af gullforða ríkisins.

Hjónin eru nú flúin til Sádí Arabíu en mótmæli landsmanna gegn stjórnvöldum í Túnis hófust einmitt í desember. Hún mun hafa sagt að gullið væri ekki öruggt í geymslum seðlabankans. Blaðið segir að seðlabankastjórinn hafi neitað að láta gullið af hendi en að þá hafi forsetinn skorist í leikinn sjálfur.

Trabelsi hafi þá flogið til Sviss og lagt gullið inn á einkareikninga hjónanna. Talsmaður seðlabankans segir hinsvegar að blaðið fari með fleipur og að gullforði landsins hafi ekki verið hreyfður í mörg ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×