Fótbolti

Harry Redknapp: Kraftaverkin gerast

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Redknapp.
Harry Redknapp. Mynd/AP
Harry Redknapp, stjóri Tottenham, neitar að gefa upp vonina að Tottenham komist áfram í Meistaradeildinni þrátt fyrir að liðið hafi tapað 0-4 í fyrri leiknum á móti Real Madrid. Seinni leikur liðanna fer fram á White Hart Lane í kvöld.

„Það er hægt að hlakka til þessa leiks. Við myndum að sjálfsögðu vilja vera í betri stöðu en fyrsti leikur fór nú bara eins og allir vita," sagði Harry Redknapp á blaðamannafundi fyrir leikinn.

„Við erum í þeirri aðstöðu að allir telja að þetta sé búið. Við þurfum á kraftaverki að halda en kraftaverkin gerast," sagði Redknapp.

„Þetta verður frábær leikur fyrir félagið, leikur í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar á móti Real Madrid. Ég er viss um að leikmennirnir og stuðningsmennirnir geta ekki beðið eftir þessum leik," sagði Redknapp.

„Við munum gefa allt sem við eigum og það er það eina sem við getum gert. Vonandi spiluðum við virkilega, virkilega vel og gerum þetta að alvöruleik," sagði Redknapp.

„Ég væri alveg til í vítakeppni enda erum við búnir að vera að æfa okkur," sagði Redknapp að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×