Innlent

Bæjarstjórinn gefur lítið fyrir gagnrýni á Landeyjahöfn

Elliði Vignisson, oddviti sjálfstæðismanna og bæjarstjóri í Vestamanneyjum.
Elliði Vignisson, oddviti sjálfstæðismanna og bæjarstjóri í Vestamanneyjum. Mynd/Óskar P. Friðriksson
„Þeir sem mest gagnrýna ættu kannski að láta það eftir sér að lesa sér aðeins til og skoða hvernig staðan er í raun og veru," segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, um Landeyjahöfn en frá því að hún var tekin í notkun á síðasta ári hefur oft ekki verið hægt að sigla til og frá höfninni.

Elliði var gestur í þætti Sigurjóns M. Egilssonar á Bylgjunni í morgun. Þar sagði hann ekkert óeðlilegt við að dæla þurfi sandi upp úr höfnum. „Við höfum verið að dæla úr Vestmanneyjahöfn frá því að hún var stofnsett og reglulega þarf að dæla úr Þorlákshöfn. Sérstaklega þarf að dæla mikið fyrstu árin. Fyrsta árið verður mikil dæling og minni vonandi á næsta ári."

Bæjarstjórinn sagði Landeyjahöfn hafa verið lokaða undanfarnar tvær vikur og enn væri beðið eftir að dýpkunarskip komi á vettvang. „Ef að dælingarskipið hefði verið á staðnum hefði lokunin verið einn og hálfur dagur. Nú eru unnar stórar og miklar mælingar á Landeyjahöfn og í ljós hefur komið að dýpið í höfninni sjálfri er óbreytt og nægt. Það er hinsvegar sandhóll fyrir framan sem tekur um tvo daga að fjarlægja. Nú bíðum við bara spennt eftir dýpkunarskipinu."

Þá sagði Elliði: „Þegar Landeyjahöfn er gagnrýnd er það svipað og að gagnrýna veg sem teppist vegna snjókomu vegna þess að veghefillinn er bilaður."

Elliði sagði Landeyjahöfn hafa breytt daglegu lífi í Vestamanneyjum. „Það fylgir þessu gríðarleg tækifæri svo mikil að á meðan Landeyjarhöfn var lokuð var hún valin framtak ársins af fjölmiðlum hér í Vestmannaeyjum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×