Innlent

Þjónusta við sjúklinga forgangur ekki laun lækna

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Byrjunarlaun sérfræðilækna á sumum deildum eru hálf milljón króna. Velferðarráðherra hyggst ekki blanda sér í kjarabaráttu lækna en segir að tekist hafi að verja velferðina með því að draga úr niðurskurði til heilbrigðisþjónustu.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra segir að vissulega sé rétt að margir læknar sinni fleiri verkefnum núna fyrir sömu laun og segist hann því skilja viðhorf þeirra. „Hins vegar þarf að taka fram að niðurskurður til heilbrigðisþjónustu hefur verið miklu minni en annarsstaðar og á þessu ári er hann 1,5 prósent, samkvæmt fjárlögum á sama tíma og velferðarkerfið að öðru leyti um 5 prósent og aðrar stofnanir og ráðuneyti um 10 prósent," segir ráðherrann.

Dæmi eru um að séfræðilæknar á ákveðnum deildum séu með rúmlega fimm hundruð þúsund krónur á mánuði í grunnlaun eftir þrettán ára háskólanám. Finnst þér það sanngjarnt? „Ég ætla ekki að leggja mat á einstök laun eða hvernig þau koma inn í launaskalann í heild. Mönnum hefur oft fundist háskólanám illa metið. Ég ætla ekkert að draga úr því að það þarf að skoða það á hverjum tíma en auðvitað þurfa menn þá að skoða heildarkjörin og vinnufyrirkomulagið til þess að meta það hvort að kjör séu sanngjörn eða ekki," segir Guðbjartur.

Getur verið að það þurfi að endurskoða forgangsröðunina í ríkisfjármálunum og setja einfaldlega meiri peninga í heilbrigðiskerfið til þess að geta búið þessu fólki viðunandi starfsumhverfi? „Á sama tíma og við missum fimmtung af tekjum íslenska ríkisins og farið í gegnum holskeflu þá bætum við ekki miklu við á meðan. Við höfum, eins og ég sagði, reynt að forgangsraða í þágu heilbrigðisstétta og heilbrigðiskerfisins og þar höfum við fyrst og fremst í huga þjónustu við sjúklingana.

Guðbjartur segist ekki hafa orðið var að heilbrigðisþjónusta hafi farið niður fyrir viðmiðunarmörk Landlæknis og engar viðvörunarbjöllur hafi hringt þar. Hann hyggst ekki blanda sér í kjaraviðræður við lækna en segir að ráðuneytið fylgist vel með. thorbjorn@stod2.is


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×