Innlent

Segir stjórnvöld fela niðurskurð í heilbrigðismálum

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Formaður Læknafélagsins segir stjórnvöld reyna að fela raunverulegan niðurskurð í heilbrigðismálum.

Frá árinu 2002 hefur um þriðjungur íslenskra lækna bæði unnið og verið búsettur erlendis. Eins og sést á grafík með fréttinni hefur þetta verið svipað undanfarin níu ár. En á síðasta ári, jókst hlutfallið upp í 36 prósent. Þetta er vegna þess að yngri læknar með sérfræðimenntun eru ekki að snúa heim í sama mæli og áður.

Birna Jónsdóttir, formaður Læknafélags Íslands hefur miklar áhyggjur af þróuninni, en læknar eiga í samningaviðræðum við ríkið. Hún segir gæta skilnings- og áhugaleysis á heilbrigðismálum hjá stjórnvöldum. „Ég held ekki að þetta sé tilviljun, ég held þetta sé meðvitað sem það er hætt að tala um heilbrigðismál núna. Það er talað um að velferðinni hafi verið hlíft en málaflokkurinn heilbrigðismál er ekki lengur til. Við skulum ekki gleyma því að það eru ekki aðrir stærri útgjaldaliðir en heilbrigðismál. Það er verið að breiða yfir þá staðreynd að það hefur verið skorið miklu meira niður í heilbrigðismálum en stjórnmálamenn hafa látið í veðri vaka," segir Birna.

Liggur ekki í hlutarins eðli að ef það á að skera niður þá þarf að skera niður mest í heilbrigðismálum af því að það er stærsti útgjaldaflokkur ríkisins? „Það eru álíka stórir flokkar eins og menntamál. Báða þessa flokka á að ræða, í hvorum við viljum skera meira niður í. Fólk á að koma að þessari umræðu. Það á ekki að reyna að fela þetta."

Birna segir álag á spítölum landsins gjörsamlega óviðunandi. Kjör lækna verði að endurspegla það. Ef það eigi á annað borð að halda uppi viðunandi heilbrigðisþjónustu hér á landi. thorbjorn@stod2.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×