Erlent

Segir föður sinn hafa haft Alzheimer þegar hann var forseti

Ron Reagan.
Ron Reagan.

Sonur Ronalds Reagans, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, Ron Reagan, gefur í skyn í nýrri bók sem hann er að gefa út, að faðir hans hefði verið kominn með einkenni Alzheimers þegar hann var enn forseti Bandaríkjanna.

Reagan lét af störfum sem forseti Bandaríkjanna árið 1989 en sjúkdómurinn var ekki greindur fyrr en 1994. Sonur Reagans, Ron, segir í bók sinni, að faðir hans hafi sjálfan grunað um ástand sitt árið 1986 þegar hann var að fljúga yfir kunnugleg gljúfur norður af Los Angeles en hann gat ómöguleg munað nöfnin á þeim.

Þá segir Ron um föður sinn að hann hafi virst illa áttaður í rökræðum við demókratann Walter Mondale í kappræðum í kosningabaráttunni 1984. Telur hann að þar megi leiða líkur á því að hrörnunarsjúkdómurinn hafi verið farið að gera vart við sig.

Þó svo að Reagan hafi sýnt merki um hrörnunarsjúkdóminn á meðan hann gegndi embætti forseta þá vill sonur hans að fólk minnist hans af verkum hans. Ron fullyrðir að faðir sinn hefði látið af embætti ef í ljós hefði komið að hann væri með Alzheimer.

Svo spyr Ron hvort veikindin eyðileggi á nokkurn hátt minningu föður síns sem forseta. Hann bendir á í þessu samhengi að Abraham Lincoln hafi verið alvarlega þunglyndur þegar hann starfaði sem forseti Bandaríkjanna.

Ron segir lærdóminn fyrst og fremst felast í áminningunni um að Bandaríkjamenn kjósi fólk með öllum sínum göllum til þess að gegna embætti forseta Bandaríkjanna. Þá eigi að dæma af verkum þeirra en ekki sjúkdómum að hans mati.

Reagan var forseti frá 1981 til 1989. Hann lést árið 2004 úr hrörnunarsjúkdóminum, þá 93 ára gamall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×