Fótbolti

Barcelona skoraði fimm mörk á móti Villarreal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cesc Fabregas, Andres Iniesta og Lionel Messi fagna marki í kvöld.
Cesc Fabregas, Andres Iniesta og Lionel Messi fagna marki í kvöld. Mynd/Nordic Photos/Getty
Barcelona-liðið fór á kostum í kvöld þegar liðið vann 5-0 sigur á Villarreal á Nývangi í leik liðanna í spænsku úrvalsdeildinni. Barcelona og Villarreal spila bæði í Meistaradeildinni í vetur en það virðist vera himinn og haf á milli þessara liða ef marka má leikinn í kvöld.

Lionel Messi skoraði tvö mörk en hin mörkin skoruðu þeir Thiago Alcântara, Cesc Fabregas og Alexis Sánchez sem allir eru að stimpla sig inn í liðið á þessu tímabili.

Thiago Alcântara nýtti tækifærið sitt vel því hann kom Barcelona í 1-0 á 24. mínútu. Það bjuggust allir að hann myndi senda boltann á einu af stjörnunum í sóknarlínu liðsins en Thiago nýtti sér það vel að varnarmennirnir hörfuðu frá honum og þrumaði boltanum í netið.

Cesc Fabregas skoraði annað markið undir lok hálfleiksins eftir að hafa fengið frábæra stungusendingu inn í teiginn frá Lionel Messi.

Alexis Sánchez skoraði þriðja markið í upphafi seinni hálfleiks eftir að hafa fengið stungusendingu frá Thiago og aðeins sex mínútum síðar var röðin komin að Lionel Messi.

Messi fékk þá stungusendingu frá Andrés Iniesta, lék á markvörðinn og skoraði örugglega. Barcelona var þá búið að skora þrjú mörk á tíu mínútum og öll komu þau eftir stungusendingu og frábært hlaup.

Lionel Messi bætti síðan við öðru marki sínu á 75. mínútu eftir sendingu frá Thiago sem var með eitt mark og tvær stoðsendingar í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×