Erlent

Fækkar í herliðinu í Afganistan

Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur tilkynnt um verulega fækkun í herliðinu í Afganistan. Forsetinn greindi frá áætluninni í ræðu í Hvíta húsinu en hún gerir ráð fyrir að fækkað verði í herliði Bandaríkjamanna í landinu um þrjátíu og þrjú þúsund menn fyrir lok september á næsta ári. Tíu þúsund hermenn munu fara frá landinu áður en þetta ár er úti og 23 þúsund á því næsta.

Fréttastofa BBC segir að fækkunin sé meiri og komi á skemmri tíma en hernaðarráðgjafar forsetans hafi mælt með. Í ræðu sinni sagði Obama að  um væri að ræða byrjunina, en ekki lokin, á þeirri vegferð að ljúka stríðinu í Afganistan sem staðið hefur frá árinu 2001. Eftir fækkunina verða um 68 þúsund bandarískir hermenn í landinu en áætlunin gerir einnig ráð fyrir að allir þeir hermenn sem beinan þátt taka í bardögum verði farnir árið 2013.

Herförin í Afganistan hefur verið bandaríska ríkinu gríðarlega kostnaðarsöm en nú um stundir kostar hún um tvo milljarða bandaríkjadala í hverri viku. Þá hafa um 1500 hermenn látist í landinu og tólf þúsund særst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×