Erlent

Hundruð þurft að flýja heimili sín

Skjáskot af frétt Skynews af eldunum
Skjáskot af frétt Skynews af eldunum Mynd/AFP
Skógareldar geisa nú í nágrenni Perth í Ástralíu. Fjöldi húsa hefur eyðilagst og enn fleiri hafa neyðst til að yfirgefa heimili sín.

Það á ekki af íbúum Perth í Ástralíu að ganga. Síðan á fimmtudag hafa þeir glímt við fellibylinn Yasi og eftirköst hans, og í dag kviknuðu svo skógareldar í nágrenni borgarinar. Á fjórða tug heimila hefur þegar orðið eldinum að bráð, og hundruð til viðbótar hafa neyðst til að yfirgefa heimili sín.

Yfirvöld hafa beint því til íbúa nærri eldunum að flýja heimili sitt ef því verður komið við, en búa sig undir að verja heimilin fyrir logum eldsins ella. Fjöldi fólks á nú í fullu fangi með að berjast við elda í nágrenni sínu með öllum tiltækum ráðum, allt frá garðslöngum til trjágreina.

Alls hafa um 150 slökkviliðsmenn barist við eldinn með aðstoð flugvéla. Einn slökkviliðsmaður er sagður hafa slasast í baráttunni við eldinn, líklegast er hann varð fyrir slökkvibíl.

Afar vindasamt er í nágrenni skógareldanna núna sem gerir slökkvistarf erfitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×