Fótbolti

Ronaldo setti markamet í 8-1 sigri Real Madrid

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ronaldo fagnar markametinu í kvöld.
Ronaldo fagnar markametinu í kvöld. Nordic Photos/Getty Images
Portúgalinn Cristiano Ronaldo bætti í kvöld markametið í spænsku úrvalsdeildinni. Það áttu Telmo Zarra frá 1951 og Hugo Sanchez frá 1990 en þeir skoruðu báðir 38 mörk á einu tímabili. Ronaldo komst í 40 mörk í kvöld er Real Madrid slátraði Almeria, 8-1, í lokaumferð spænska boltans.

Ronaldo skoraði tvö mörk í leiknum, Emmanuel Adebayor þrjú, Karim Benzema tvö og Joselu eitt.

Ronaldo og Messi hafa verið yfirburðamenn í spænska boltanum í vetur og er Ronaldo kominn með 53 mörk í öllum keppnum en Messi 52. Messi á leikinn í úrslitum Meistaradeildarinnar eftir.

Þessi magnaði markafjöldi Portúgalans í deildinni gerir hann líka að markahæsta leikmanni Evrópu. Er hann aðeins áttundi leikmaðurinn sem nær því að vera markahæstur í Evrópu í tvígang.

Real Madrid hafnaði aftur í öðru sæti deildarinnar og skoraði nákvæmlega 102 mörk annað árið í röð. Þetta er í þriðja sinn sem Real rýfur 100 marka múrinn sem er met. Barcelona hefur aðeins gert það tvisvar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×