Erlent

Hamas hafnar kosningunum

Mahmoud Abbas Kjörtímabil forseta Palestínustjórnar rann út árið 2009.
nordicphotos/AFP
Mahmoud Abbas Kjörtímabil forseta Palestínustjórnar rann út árið 2009. nordicphotos/AFP
Palestínustjórn skýrði frá því að kosningar verði haldnar, bæði á Vesturbakkanum og á Gasaströnd, hinn 9. júlí í sumar. Stjórn Hamas-samtakanna á Gasa segir að Palestínustjórnin í Ramallah hafi engan rétt til að efna til þessara kosninga.

Kosningar hafa ekki verið haldnar á herteknu svæðunum síðan 2006, þegar Hamas vann yfirburðasigur. Ágreiningur milli Hamas og Fatah, tveggja helstu hreyfinga Palestínumanna, varð til þess að Hamas-samtökin hröktust frá völdum á Vesturbakkanum en tóku sér jafnframt öll völd á Gaza árið 2007.

Fréttaskýrendur telja sumir hverjir að atburðirnir í Egyptalandi og víðar í arabaheiminum hafi ýtt á það, að Palestínustjórn boðar til kosninga nú frekar en að hætta á að almenningur knýi fram kosningar með fjöldamótmælum.

Mahmoud Abbas, forseti Palestínustjórnar, frestaði sveitarstjórnarkosningum á Vesturbakkanum á síðasta ári þegar ljóst þótti að Hamas myndi vinna sigur.

Sáttaviðræður milli Hamas og Fatah, sem Egyptar hafa haft milligöngu um, hafa til þessa ekki skilað árangri.

Fjögurra ára kjörtímabil Abbas rann út árið 2009 og kjörtímabil Palestínuþings rann út á síðasta ári.- gb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×