Innlent

Geitungurinn að taka við sér

Meindýravörnum berast nú hringingar vegna geitunga.
Meindýravörnum berast nú hringingar vegna geitunga.
Tiltölulega lítið hefur farið fyrir geitungum það sem af er sumri en Guðmundur Björnsson, rekstrarstjóri meindýravarna Reykjavíkurborgar, segir að nú virðist vágestur þessi vera að taka við sér.

„Þetta hefur verið mjög rólegt fram að þessu,“ segir hann. „Þó virðist þetta ekki allt hafa misfarist hjá geitungunum því við erum farnir að fá hringingar út af þeim núna.“ Í fyrra eyddu meindýravarnir Reykjavíkurborgar átta búum í júnímánuði en þau voru einungis tvö í sama mánuði í ár. Hann segir þó að verstu tveir mánuðirnir séu júlí og ágúst hvað þetta varðar. „Þá fer þetta að byrja fyrir alvöru,“ segir hann. Hann bendir einnig á að þegar hlýtt og þurrt er í veðri verði fólk frekar vart við geitunga þar sem það sé meira úti við en það þurfi ekki að þýða að þeir séu ekki á ferð í vætutíð eins og þeirri sem verið hefur fyrripart sumars.

En það kemur fleira á borð meindýravarna en geitungar. Til dæmis komu þeir rúmlega sextíu minkum fyrir kattarnef á síðasta ári. Flestir þeirra voru teknir á Kjalarnesi. Eins segir Guðmundur að þeir hirði um hundrað ketti á ári eftir að ekið hefur verð yfir þá. Þá berast endrum og eins hringingar vegna meinlegra dýra úr einkaeign, eins og til dæmis snáka, sem hafa stungið eiganda sinn af. - jse




Fleiri fréttir

Sjá meira


×