Innlent

Voru ekki tilbúin að lýsa yfir stuðningi við stefnu ríkisstjórnarinnar

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Ásmundur Einar Daðason og Lilja Mósesdóttur.
Ásmundur Einar Daðason og Lilja Mósesdóttur.

Þrír þingmenn Vinstri grænna, þeir sömu og sátu hjá við atkvæðagreiðslu um fjárlög, voru ekki tilbúnir að styðja ályktun um stuðning við stefnu ríkisstjórnarinnar á þingflokksfundi Vinstri grænna í gær.

Árni Þór Sigurðsson, starfandi þingflokksformaður og þingmennirnir Lilja Rafney Magnúsdóttir og Þuríður Backman lögðu fram tillögu fyrir þingflokksfund Vinstri grænna í gær um stuðning við ríkisstjórnina og stefnu hennar. Ekki tókst að afgreiða tillöguna vegna andstöðu þriggja þingmanna, þeirra sömu og sátu hjá við atkvæðagreiðslu um fjárlögin hinn 16. desember sl.

Að sögn Lilju Rafneyjar varð aldrei atkvæðagreiðsla um tillöguna. Hún sagði í samtali við fréttastofu í morgun að andstaða Lilju Mósesdóttur, Ásmundar Einars og Atla Gíslasonar hefði birst þannig að þremenningarnir hafi ekki talið tímabært að afgreiða tillöguna að svo stöddu. Hún sagði að enginn þrýstingur hafi verið á þau að styðja tillöguna. Niðurstaðan hafi því verið að ræða málefnin betur í framhaldinu.

Vilja ræða ágreining um málefni frekar

Ásmundur Einar, hvers vegna vilduð þið þrjú ekki styðja tillöguna um að lýsa stuðningi við ríkisstjórnina? „Þetta var í fyrsta lagi mjög góður fundur. Þarna voru hreinskiptnar og opnar samræður um þau mál sem hefur verið ágreiningur um innan Vinstri grænna. Menn voru sammála um það á fundinum að taka þyrfti þessi mál aðeins áfram. Það náðist t.d ekki að ræða málin til enda, eins og t.d Evrópusambandsmálin og þann ágreining sem verið hefur um þau. Þess vegna voru menn sammála um að taka þessi mál áfram á næstu fundum," segir Ásmundur Einar.

Fundurinn í gær var sáttatilraun, en nokkuð harðar deilur hafa verið í þingflokknum. M.a hefur starfandi þingflokksformaður sakað þremenninganna sem sátu hjá við afgreiðslu fjárlaga um þvingunaraðgerð til að fá ríkisstjórnina til að breyta um stefnu. Að sögn Ásmundar Einars kemur þingflokkurinn aftur saman næsta mánudag og verða þá málefnin og stefna ríkisstjórninarinnar rædd frekar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×