Erlent

Flóðin lama miðborgina

Heilu hverfin í Brisbane eru nánast komin á kaf.Fréttablaðið/AP
Heilu hverfin í Brisbane eru nánast komin á kaf.Fréttablaðið/AP

Miðborgin í Brisbane í Ástralíu er orðin hálfgerð draugaborg. Enginn er að störfum í skrifstofubyggingum, sem venjulega eru troðfullar af fólki. Íbúar á lægri svæðum borgarinnar hafa síðustu daga keppst við að flytja dýrmætar eigur sínar upp á efri hæðir húsa. Sumir hafa staflað húsgögnum upp á húsþakið hjá sér. Aðrir hafa komið sér fyrir á hærri slóðum í borginni eða næsta nágrenni hennar, þar sem þeir ætla að bíða af sér flóðin.

Flestar götur í miðborginni og nágrenni hennar eru lokaðar og fólk fór ferða sinna á kajökum, árabátum eða jafnvel á brimbrettum.

Á þriðjudaginn flæddi yfir bakka Brisbane-fljóts, sem rennur í gegnum borgina, og hefur vatnsborðið verið að hækka jafnt og þétt síðan. Flóðin í borginni ná líklega hámarki í dag og byrja ekki að sjatna fyrr en í fyrsta lagi á laugardag, að því er veðurfræðingar spá.

Talið er að vatn muni flæða inn í tuttugu þúsund íbúðir í borginni, sem er höfuðborg Queensland-héraðs.

Tugir manna hafa þegar látið lífið í flóðunum í Queensland, sem rekja má til mikillar úrkomu sem hófst í nóvember með þeim afleiðingum að ár tóku smám saman að flæða yfir bakka sína. Nú eru flóðin að ná til Brisbane, sem er neðst við ströndina, en áður hafa þau valdið usla og skemmdum í smærri bæjum og byggðum, sem standa ofar.

Flóðin eru með þeim verstu sem þekkst hafa í sögu Ástralíu. Nýjustu spár benda þó til þess að vatnshæðin verði heldur minni en árið 1974 þegar ástandið var með versta móti.

„Þetta er samt mikill viðburður. Borgin er miklu stærri og miklu fjölmennari og margir borgarhlutar fara undir vatnið núna sem voru ekki til árið 1974,“ segir Anna Bligh, forsætisráðherra í Queens­land-héraði.

Ljóst er að flóðin í Queensland verða Áströlum dýrkeyptari en nokkrar aðrar náttúruhamfarir hafa orðið. Sérfræðingum reiknast svo til að tjónið verði metið á nærri 600 milljarða króna.

Kolanámur í héraðinu hafa verið lokaðar síðustu daga og uppskera er víða ónýt með öllu. Um sjötíu þúsund heimili í Queensland voru án rafmagns og ákveðið var að loka fyrir rafmagn í miðborg Brisbane af öryggisástæðum.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×