Erlent

Brutust inn í tölvur 72 stofnana

Hér má sjá bandarískt viðbragðsteymi sem berst gegn tölvuárásum sem þessum.
Hér má sjá bandarískt viðbragðsteymi sem berst gegn tölvuárásum sem þessum. Nordicphotos/afp
Tölvuöryggisfyrirtækið McAfee fullyrðir að það hafi komist á snoðir um umfangsmestu tölvuárás sögunnar. Árásin hafi staðið yfir í fimm ár og beinst að 72 stofnunum og fyrirtækjum, meðal annars Alþjóðaólympíunefndinni, indverska ríkinu, Sameinuðu þjóðunum og öryggisfyrirtækjum.

Talsmaður McAfee sagði árásina, sem lýst er sem hrinu rafrænna innbrota, ótrúlega umfangsmikla og að hún stæði enn yfir. Fyrirtækið hefur getað greint sum innbrotin og komist að því að gögnum hafi verið stolið.

Talsmaðurinn vildi ekkert tjá sig um hvaðan árásin væri upprunnin, það yrðu getgátur einar.

Kínverjar voru hins vegar fljótlega bendlaðir við málið og fjöldi sérfræðinga sem hefur tjáð sig um málið er sammála um að einungis Rússar og Kínverjar hafi tök á að standa að svona víðfeðmri árás. Kínverjar hafi hins vegar meiri hag af slíkum iðnaðarnjósnum.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem spjótin beinast að kínverskum stjórnvöldum í umræðunni um tölvuglæpi. Talsmenn Kínastjórnar hafa hins vegar ætíð hafnað slíkum ásökunum og sagt að fyrir þeim sé enginn fótur.

- sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×