Erlent

Smábörn á vergangi í Ástralíu

Börn allt niður í átján mánaða eru á vergangi vegna flóðanna í Queensland í Ástralíu, en þúsundir hafa flúið heimili sín. Samtökin Barnaheill - Save the children - þar í landi; hafa komið upp aðstöðu svo börn geti sem næst lifað eðlilegu lífi.

Óttast er að ástandið verði alvarlegt á mörgum stöðum í Queensland í Ástralíu út þennan mánuð vegna mikilla flóða. Talið er að um tvö hundruð þúsund manns, eða sem nemur um tveimur þriðju íbúa Íslands, verði fyrir áhrifum af flóðunum; tuttugu þúsund hafa flúið heimili sín og talið er að um fjögur þúsund manns eru á vergangi og hafast við í hjálparmiðstöðvum.

„Þetta þýðir náttúrulega að allar aðstæður eru erfiðar, börn verða viðkæm í svona aðstæðum. Það er verið að sinna grunnþörfum svo sem húsaskjóli og að hreint vatn sé til staðar. Það sem Barnaheill - Save the children er að gera í Ástralíu, er að reyna koma upp hjálparstöðvum með barnvænum stöðum og reynt að búa til eðlilegt líf fyrir börnin, að þau fái að leika sér og tala við fólk. Það eru allt þjálfaðir einstaklingar sem meðhöndla börnin," segir Björg Björnsdóttir hjá Barnaheillum - Save the children.

Á meðan hafi foreldrarnir tækifæri til að vinna í málum fjölskyldnanna. En þarna eru allt niður í mjög ung börn.

„Þau eru á öllum aldri, allt frá 18 mánaða gömlum upp í 15 ára," segir Björg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×