Erlent

Loftsteinsins vænst klukkan fimm í dag

Á myndinni má sjá norðurpól smástirnisins Eros, næst stærsta smástirninu sem komið hefur nærri jörðu.
Á myndinni má sjá norðurpól smástirnisins Eros, næst stærsta smástirninu sem komið hefur nærri jörðu. Mynd/AP
Loftsteinninn 2011 MD mun koma næst jörðu um klukkan fimm í dag að sögn Sævars Helga Bragasonar, formanns Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness.

Loftsteinninn, sem stjörnuskoðunarmenn uppgötvuðu í síðustu viku, er um tuttugu metrar að lengd og verður í um 12 þúsund kílómetra fjarlægð frá jörðu í dag.

Sævar Helgi segir það alls ekki einsdæmi að loftsteinn komist svo nærri yfirborði jarðar, en hinsvegar sé það sjaldgæfara að þeir uppgötvist með svona góðum fyrirvara. Oft sé ekki komið auga á þá fyrr en eftir að eftir þeir seu farnir framhjá jörðu.

Á vefsíðu Geimferðastofnunar Bandaríkjanna segir að loftsteinninn virðist vera á sporbraut um sólu sem svipi um margt til sporbrautar jarðar, en greining á ferli loftsteinsins hafi leitt í ljós að engin hætta sé á að steinninn nái alla leið að yfirborði jarðar.

Þó búist sé við því að 2011 MD verði það bjartur að hægt verði að koma auga á hann með tiltölulega venjulegum sjónauka, samkvæmt því sem fram kemur á vefsíðu geimferðastofnunarinnar, verða íslenskir stjörnuáhugamenn að láta sér nægja sögusagnir og myndir þar sem steinninn mun fara hjá suðurhveli jarðar.

2011MD gæti valdið einhverjum truflunum á sendingum GPS gervihnatta þar sem loftsteinninn mun fara um það svæði þar sem þau eru á braut um jörðu en hinsvegar segir Sævar það harla ólíklegt að árekstur verði, enda um mjög stórt svæði að ræða.

Nánar má lesa sér til um loftsteina á borð við 2011MD í grein Sævars Helga á bloggi stjörnufræðivefsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×