Erlent

Svikin kærasta fær vægan dóm í Mikka mús málinu

Bonnie og Mikki mús.
Bonnie og Mikki mús.
Fyrrverandi ritari hjá Walt Disney fyrirtækinu, Bonnie Hoxie, var dæmd í þriggja ára skilorðsbundið fangelsi í dag í New York í Bandaríkjunum fyrir að hafa stolið talsvert af innherjaupplýsingum um Walt Disney fyrirtækið fyrir fyrrverandi kærasta sinn, Yonni Sebbag.

Kærastinn fékk Bonnie til þess að stela upplýsingunum fyrir sig yfir langt tímabil. Yonni sagði við hana að hann ætlaði að nýta upplýsingarnar til þess að fjárfesta. Í staðinn reyndi hann að selja nokkrum vogunarsjóðum upplýsingarnar án árangurs.

Lögreglan handtók hann að lokum eftir að þeir þóttust vera viðskiptamenn á vegum eins sjóðsins. Yonni vildi fá greidda fimmtán þúsund dollara fyrir upplýsingarnar.

Fyrir rétti sagði Bonnie að hún hefði verið notuð af kærastanum, hún grét á meðan, og sagði að það væri sennilega engin afsökun, en þannig væri það nú samt. Dómarinn sá aumur á henni og sagði henni áður en dómur féll að hún þyrfti engar áhyggjur að hafa, hún þyrfti ekki að sitja inni fyrir brot sín.

Bonnie þarf að dúsa í stofufangelsi fyrstu fjóra mánuðina og síðan afplána 100 klukkustundir í samfélagsþjónustu.

Kærastinn hennar var þó ekki jafn heppinn, hann fékk tveggja ára fangelsi. Eftir afplánun verður honum vísað úr landi, en hann er frá Marakkó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×