Fótbolti

Iniesta: Þetta verða klassískar viðureignir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andres Iniesta.
Andres Iniesta. Mynd/AFP
Andres Iniesta, leikmaður Barcelona, hefur hrósað liði Arsenal fyrir leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar og talar um að Barca sé að fara að mæta einu besta liði í heimi á Emirates-leikvanginum í kvöld.

Barcelona og Arsenal eru bæði þekkt fyrir að spila skemmtilegan sóknarbolta þar sem samspil leikmanna er oft á tíðum sannkallað augnakonfekt. Barcelona vann 6-3 samanlegt þegar liðin mættust í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar í fyrra.

„Ég gat ekki spilað í fyrra vegna meiðsla en þetta var frábær leikur hérna í London með fullt af mörkum," rifjar Andres Iniesta upp en Arsenal náði þá 2-2 jafntefli eftir að hafa lent 0-2 undir.

„Við áttum nokkra góða spretti í leiknum en þeir settu okkur samt undir mikla pressu. Þeir ætla sér örugglega að ná öðrum góðum leik á móti okkur og við þurfum að spila okkar besta leik því þeir eru eitt af bestu liðunum í heimi," sagði Iniesta.

„Þetta mun samt ráðast í seinni leiknum í Barcelona. Þetta er Meistaradeildin og við erum að mæta einu af bestu liðunum í heimi og því heldur örugglega enginn að þetta ráðist í kvöld. Þetta verða örugglega klassískar viðureignir," sagði Iniesta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×