Fótbolti

Mál Gattuso tekið fyrir á mánudag - Flamini ekki refsað

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gennaro Gattuso í leiknum í gær.
Gennaro Gattuso í leiknum í gær. Nordic Photos / Getty Images
Knattspyrnusamband Evrópu hefur staðfest að rannsókn sé hafin á hegðun Gennaro Gattuso, leikmanni AC Milan, eftir leik liðsins gegn Tottenham í Meistaradeild Evrópu í gær.

Gattuso hnakkreifst við Joe Jordan, aðstoðarþjálfara Tottenham, bæði á meðan leiknum stóð og svo aftur eftir hann.

Í síðara skiptið skallaði Gattuso Jordan og hefur síðan þá viðurkennt að hann hafi misst stjórn á skapinu og beðist afsökunar á atvikinu.

Aganefnd UEFA mun koma saman á mánudaginn þar sem að mál Gattuso verða tekin fyrir formlega.

Gattuso var með gult spjald á bakinu fyrir leikinn í gær og fékk aftur gult í leiknum í gær. Hann verður því hvort eð er í banni í síðari viðureign liðanna á White Hart Lane.

Talsmaður UEFA sagði þó að ekkert væri hægt að gera í máli Mathieu Flamini, sem tæklaði Vedran Corluka í gær. Harry Redknapp, stjóri Tottenham, sagði tæklinguna verðskulda rautt spjald.

Dómari leiksins gaf Flamini hins vegar aðeins áminningu fyrir brotið og er ekki hægt að breyta þeirri refsingu eftir á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×