Innlent

Launþegar fá 50 þúsund krónur um mánaðamótin

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Skrifað var undir kjarasamninga í húsnæði ríkissáttasemjara um sexleytið í kvöld. Samkvæmt kjarasamningunum munu starfsmenn sem voru í fullu starfi í mánuðunum mars-maí fá 50 þúsund eingreiðslu í júní næstkomandi. Starfsmenn sem létu af störfum í apríl eða eru í hlutastarfi fá hlutfallslega greiðslu miðað við starfstíma í mars og apríl. Starfsmenn sem hófu störf í apríl og verða í starfi til 5. maí fá hlutfallslega greiðslu miðað við starfstíma í apríl og maí. Að auki verður 10 þúsund króna álag á orlofsuppbót á þessu ári og 15 þúsund króna álag á desemberuppbót.

Launþegar munu fá 4,25% almenna launahækkun í júní, 3,5% hækkun í febrúar á næsta ári og 3,25% launahækkun í febrúar árið 2013. Sérstök áhersla er lögð á hækkun lægstu launa með hækkun launataxta um allt að 21% og lágmarkstekjutryggingar um 23,6%. Þá verður persónuafsláttur verðtryggður frá og með næstu áramótum.

Kjaramningurinn gildir til 31. janúar 2014, með endurskoðun í janúar 2012 og janúar 2013. Ákveðinn fyrirvari er á samningnum sem tengist stjórnvaldsaðgerðum og lagabreytingum sem þurfa að eiga sér stað fyrir 22. júní 2011. Ef þær forsendur sem snúa að stjórnvöldum standast ekki gildir samningurinn til 1. febrúar 2012.

Samtök atvinnulífsins segja að heildarlaunakostnaður vegna samninganna muni aukast um 13% í heildina á samningstímanum sem er til 31. janúar 2014. Launakostnaður fyrirtækja í ákveðnum greinum hækkar meira. Þá segja SA að atvinnutryggingagjald muni lækka 2012. Ef áætlanir um minna atvinnuleysi ganga eftir lækkar gjaldið frá næstu áramótum og aftur í ársbyrjun 2013. Tryggingagjaldið í heild gæti lækkað um tæpt 1% um næstu áramót og um 0,3% til viðbótar 2013.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×