Innlent

Segir Ísland gjaldþrota vegna umburðalyndis gagnvart samkynhneigðum

Margie Phelps hatar nokkurn veginn alla, nema Guð.
Margie Phelps hatar nokkurn veginn alla, nema Guð.
Ísland er gjaldþrota vegna umburðarlyndis gagnvart samkynhneigðum að mati Margie Phelps, sem tilheyrir fjölskyldu sem bandarískir fjölmiðlar hafa oft nefnt hataðasta fjölskylda Bandaríkjanna.

Það var útvarpsþátturinn Harmageddon á X-inu 977 sem hringdi í Margie en fjölskylda hennar heldur úti sérkennilegum kristnum ofsatrúarsöfnuði sem stundar það meðal annars að mótmæla fyrir framan jarðarfarir bandarískra hermanna sem látast á vígvellinum.

Í Harmageddon útskýrir Phelps hugmyndafræði sína. Hún stendur í þeirri trú að Guð sé að refsa bandarísku þjóðinni vegna syndavæðingar landsins og því hafi hann att þjóðinni út í stríð. Hver hermaður sem lætur lífið í stríðunum í Írak og Afganistan er því að gjalda fyrir syndir þjóðarinnar að hennar mati.

Phelps vill meina í viðtalinu að Ísland sé gjaldþrota [sem landið er að vísu ekki og var aldrei, innskot blms.] vegna þess að samkynhneigð sé almennt viðurkennd hér á landi.

Hún segir Íslendinga þó enn geta bjargað eigin sálu. Hún segir mikilvægast fyrir þá sem vilja ekki verða fyrir refsingu Guðs, að fara stunda kirkju og fylgja henni sjálfri á Twitter-samskiptavefnum.

Hægt er að hlusta á viðtalið hér fyrir ofan auk þess sem hægt er að sjá brot úr heimildarmynd Louis Theroux sem var sýnd á Stöð 2 um fjölskylduna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×