Innlent

Verktakar frá sex löndum vilja Vaðlaheiðargöng

Lóa Pind Aldísardóttir. skrifar
Vaðlaheiðargöng.
Vaðlaheiðargöng.
Íslenskir, norskir, danskir, svissneskir, færeyskir og tékkneskir verktakar hafa lýst yfir áhuga á að fá að gera tilboð í byggingu Vaðlaheiðarganga. Sex hópar taka þátt í forvalinu.

Vegagerðin hefur birt nöfn þeirra fyrirtækja sem sendu inn gögn í svokallað forval - en uppfylli þau öll skilyrði fá þessir verktakar að gera tilboð í að grafa Vaðlaheiðargöng ásamt tilheyrandi byggingu vegskála og lagningu vega. Fjórir eru samstarfshópar nokkurra verktaka, þar á meðal eru Íslenskir aðalverktakar í samvinnu við svissneska verktaka, danska fyrirtækið Per Aarsleff í samvinnu við færeyska verktaka, Norðurverk sem er hópur sex íslenskra fyrirtækja og loks Suðurverk í samstarfi við Metrostav - sem tók þátt í Héðinsfjarðargöngum milli Ólafs- og Siglufjarðar.  Ístak stendur eitt að sinni umsókn og sömuleiðis norskt verktakafyrirtæki.

Hlutafélagið Vaðlaheiðargöng er að meirihluta í eigu ríkisins, en einkahlutafélagið Greið leið á tæpan helming. Göngin verða 7,2 kílómetrar, heldur lengri en Hvalfjarðargöngin. Áætlaður kostnaður er 10,4 milljarðar. Reiknað er með að hóparnir geti sent inn tilboð snemma í haust og hægt verði að byrja að grafa göngin strax á seinni hluta ársins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×