Fótbolti

Giggs: Rosalegt afrek að komast í þrjá úrslitaleiki á fjórum árum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ryan Giggs.
Ryan Giggs. Mynd/Nordic Photos/Getty
Ryan Giggs á möguleika á því að spila sinn fjórða úrslitaleik í Meistaradeildinni og vinna Evrópumeistaratitilinn í þriðja sinn eftir að Manchester United tryggði sér farseðillinn á Wembley í gær.

Giggs fékk hvíld í gær, sat á bekknum allan tímann, en United vann engu að síður sannfærandi 4-1 sigur. Hann skoraði hinsvegar fyrsta markið í mikilvægum 2-0 sigri í fyrri leiknum og lagði upp öll mörk liðsins í átta liða úrslitunum á móti Chelsea.

„Það er erfitt að komast alla leið í Meistaradeildinni og það er rosalegt afrek að komast í þrjá úrslitaleiki á fjórum árum," sagði Ryan Giggs við SkySports.

Giggs vonast til þess að United-liðið geti bú bætt fyrir tapið á móti Barcelona í úrslitaleiknum fyrir tveimur árum. „Það kvöld var kvöld mikilla vonbrigða því við spiluðum ekki sama fótbolta og hafði komið okkur í úrslitaleikinn. Við höfum verið að spila vel í Meistaradeildinni á þessu tímabili og getum vonandi haldið því áfram," sagði Giggs.

Giggs var fyrirliði í úrslitaleiknum 2009 en kom inn á sem varamaður í úrslitaleiknum 2008 og skoraði meðal annars í vítakeppninni þar sem United tryggði sér Evrópumeistaratitilinn. Giggs lék líka allan leikinn þegar United vann meistaradeildina á dramatískan hátt árið 1999 eftir 2-1 sigur á Bayern München.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×