Innlent

Fimmtán hundruð hafa sótt um níu hundruð sumarstörf

Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra.
Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra.
Fimmtán hundruð námsmenn og atvinnuleitendur hafa sótt um þau níu hundruð sumarstörf sem auglýst voru af Velferðarráðuneytinu og Vinnumálastofnun um miðjan síðasta mánuð. Hart er slegist um þau störf sem eru í boði segir formaður stúdentaráðs.

Umsóknarfrestur um störfin rennur ekki út fyrr en áttunda maí og er því búist við að umsækjendum fjölgi enn frekar. Lilja Dögg Jónsdóttir, formaður stúdentaráðs Háskóla Íslands, segir fjölda nemenda hafa leitað til ráðsins í því skyni að kanna hvaða úrræði standi þeim til boða fái þeir ekki vinnu í sumar.

„Það er nú svolítið sláandi að sjá tölurnar þegar fimmtán hundruð manns eru búin að sækja um þessi 900 störf sem eru í boði hjá velferðarráðuneytinu sem eru held ég mun fleiri en sóttu um í fyrra þar sem einhver störf gengu af í fyrra. þannig að það bendir kannski til þess að vandinn sé enn til staðar og jafnvel ennþá verri en var á síðasta ári," segir Lilja.

Lilja segir nemendur nú leggja fyrr af stað í atvinnuleit. Fjöldi þeirra sendir umsóknir á tugi fyrirtækja til þess að gulltryggja sig, en það skili ekki alltaf tilsettum árangri því hart er slegist um þau störf sem eru í boði. Hún segir þá nemendur sem hafa leitað til stúdentaráðs áhyggjufulla.

„Sumarfríið er tæpir fjórir mánuðir, eða þrír og hálfur, og það er svolítið langur tími til að vera án tekna og sérstaklega ef fólk býr í eigin húsnæði og er með fjölskyldu. Stúdentar eru náttúrulega á öllum aldri og búa við ýmsar aðstæður."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×